Spurt og svarað
Hvað er farið yfir á námskeiðinu ‘Viðhald fasteigna’?
Á námskeiðinu er farið yfir margt af því sem felst í því að eiga og viðhalda fasteign. Farið er yfir raunkostnað, kaup/sölu fasteigna og hvað þarf að varast, stóra viðhaldshluta fasteigna ásamt mörgu öðru. Þá er rætt um samskipti við iðnaðarmenn, verksamninga og hvað það er að sinna áhrifaríku viðhaldi. Námskeiðið er hugsað fyrir alla og ekki þarf að hafa neina þekkingu á viðhaldi til að mæta á það.
Hvað er ástandsskoðun fyrir sölu/kaup?
Ástandsskoðun fyrir sölu/kaup er skoðun sem er framkvæmd (oftast af kaupanda) á fasteign sem búið er að gera tilboð í með fyrirvara um ástandsskoðun. Við komum og skoðum fasteignina að innan og utan og könnum hvort allt sé eins og það á að vera. Við athugum þak, ytra byrði og glugga ásamt því að rakamæla innan í fasteigninni þar sem líkur eru á rakaskemmdum.
Hvernig fara rakamælingar fram?
Rakamælingar sem við fræmkvæmum eru svokallaðar viðmiðunarrakamælingar og byggjast á því að mæla rakastig byggingarhluta miðað við aðra þurra hluta í fasteigninni. Þannig er hægt að bera saman mælingar og komast að því hvort rakastig sé óðelilega hátt, t.d. undir gluggum eða við svalahurðir. Þessar rakamælingar valda engu tjóni og henta vel heima hjá fólki.
Get ég látið mygluprófa/skoða íbúðina mína?
Til þess að ganga úr skugga um hvort það sé mygla eða ekki viljum við taka sýni og senda í greiningu til Náttúrufræðistofnunar Íslands. Flest vettvangspróf fyrir myglu eru ónákvæm og besta leiðin til að kanna hvort það sé mygla er að taka byggingarsýni. Rakamælingar sem við framkvæmum eru fyrsta skrefið til að finna svæði þar sem mygla gæti hafa komist á legg. Það að taka byggingarsýni veldur alltaf einhverju tjóni og það þarf að saga eða bora til að taka sýnið.
Hvað er viðhaldsgreining?
Ef að þú átt fasteign mun á endanum koma að viðhaldi á henni. Margir átta sig kannski á því að bráðum verður þörf á viðhaldi en vilja vita hvað það er sem þarf að gera fyrst. Til að fá yfirsýn yfir hvar á að byrja er hægt að fá viðhaldsgreiningu á fasteign sinni og skýrslu þar sem viðgerðum er forgangsraðað og ráðleggingar gefnar um næstu skref. Þannig er hægt að skipuleggja viðhald, jafnvel mörg ár fram í tímann og oft er þörf á óháðum aðila til að framkvæma þetta mat þegar ósætti hefur verið í húsinu um næstu skref.
Hvenær þarf ég ástandsskoðun?
Ástandsskoðun getur verið vænlegur kostur þegar fasteign er komin á þann stað að margir hlutar hennar séu ‘komnir á tíma’. Á íslandi gerist þetta oft þegar fasteignir eru 40-50 ára en þá fara oft hlutir að gefa sig, t.d. gluggar og þak. Það getur einnig verið gagnlegt að láta ástandsskoða nýrri byggingar en það fer eftir mörgum þáttu, t.d. viðhaldstíðni, staðsetningu eignar osfrv.